Jólasaga Pressunnar 2015 er eftir Róbert Marvin

Fyrir síðustu jól tók Pressan upp þann sið að birta frumsamda jólasögu eftir íslenskan höfund skömmu fyrir jól. Okkur langar til að halda þessu áfram og að þessu sinni birtum við áhrifamikla jólasmásögu eftir rithöfundinn Robert Marvin. Hann hefur getið sér gott orð fyrir smásögur sínar en fyrr á árinu gaf hann einnig út skáldsöguna Konur húsvarðarins, sem er spennusaga. Smásagan sem hér fer á eftir, Gjöf handa mömmu, er í senn hjartnæm og vönduð saga sem heldur lesandanum föngnum. Hún birtist  upphaflega í smásagnasafninu Jólasögur sem kom út í haust og inniheldur jólasmásögur eftir ýmsa höfunda.

Heimasíða Róberts Marvin

Robert Marvin

 

GJÖF HANDA MÖMMU

            Lyktin af Þorláksmessu barst inn um gluggann. Ég slökkti á tölvunni.
            Það var aðeins hálfur vinnudagur á Þorlák. Mér hefði ekki verið á móti skapi að vinna allan daginn. Jafnvel lengur. Heima var ekkert sem beið mín. Ekkert fólk. Bara húsgögn og sjónvarpið. Svo ef ég var með nógu mikla sjálfspyntingarhvöt þá gat ég kíkt á hvað kunningjarnir voru að gera með fjölskyldunni fyrir jólin. Sem myndi minna mig á það sem ég hefði einu sinni átt en hafði ekki lengur.
            Ef allt væri eins og það ætti að vera, þá myndu bíða mín eiginmaður og dóttir heima. Bæði tilbúin að fara í göngutúr niður Laugaveginn að skoða mannlífið. Laumast í búðir að kaupa jólagjöf á síðustu stundu. Við myndum drekka saman heitt kakó og fylgjast með fólkinu vafra á milli verslana í snjónum. Tala um allt. Tala um ekkert.
            En það var ekki eins og það átti að vera. Ég fann tár myndast og þurrkaði það í burtu af gömlum vana.
            Finnur maðurinn minn og Tara höfðu verið svipt í burtu í einu vetfangi. Það tók ekki nema augnablik, símhringingu frá prestinum. Það sem ég man voru orðin bílslys og dáin.
            Það voru liðin þrjú ár síðan. Ökumaðurinn sem olli slysinu var kona. Hún hafði lifað af slysið á furðulegan hátt. Hún var ekki í bílbelti og þeyttist út um glugga bílsins. Það hafði bjargað henni.
            Mér hafði verið sagt síðar af lögreglunni að hún hafi verið drukkin og ætlað að fremja sjálfsmorð. María Guðbrandsdóttir hét hún.

Ég heimsótti hana einu sinni á sjúkrahúsið, stóð yfir henni og horfði á hana. Ég fann fyrir miklu óréttlæti þar sem ég stóð yfir henni þar sem hún lá. Af hverju hún? Af hverju ekki Tara eða Finnur? Hvers vegna þurftu þau endilega að vera á sama vegi og þessi kona? Þessi eigingjarna kona.
            Yfirþyrmandi hatur fyllti hjarta mitt og ég ákvað að fara áður en ég gerði eitthvað sem ég myndi sjá eftir.
            María Guðbrandsdóttir vaknaði aldrei úr dáinu og dó nokkrum mánuðum síðar. Það veitti mér enga friðþægingu.  

            Mig langaði ekki heim. Ég myndi ekki halda jól í ár frekar en tvö síðustu ár. Það var ekkert að halda upp á. Enginn til að þiggja gjafirnar. Enginn til að óska gleðilegra jóla.
            Annað tár slapp úr hvarminum og rann niður kinnina.
            „Gleðileg jól, Inga.“ Gunni bókari veifaði og lét sig hverfa niður stigann.
            Ég leit undan en lyfti hendinni í kveðjuskyni.
            Ég ákvað að fara ekki heim en þess í stað að labba niður Laugaveginn. Jafnvel fá mér kakó. Ég greip töskuna mína og vafði treflinum um hálsinn og gekk út.

            Ég lagði bílnum á Hverfisgötunni og gekk upp á Laugaveginn. Fólkið streymdi stríðum straumum í báðar áttir.  Stór þykk snjókorn féllu rólega niður á hvíta jörðina og þó fólk væri mikið að flýta sér í jólaösinni fann ég fyrir friðsældinni.
            Hugsanir um fjölskyldu mína læddust að mér frá öllum áttum. Ef ég leit á snjóinn þá hugsaði ég um Töru. Ef ég leit á karlmann þá hugsaði ég um Finn. Það skipti engu máli hvað það var, þau sóttu að mér. Mikið vildi ég óska þess að þau væru komin aftur.
            Ég áttaði mig ekki á því en ég stóð á miðjum Laugaveginum og var eina manneskjan sem stóð í stað á meðan straumurinn af fólki streymdi um í kringum mig.
            Ég byrjaði að ganga niður Laugaveginn og horfði tómum augum á gluggaútstillingar sem vöktu ekki áhuga minn.   
            Kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju gripu athygli mína. Varla var verið að hringja inn til messu klukkan að verða þrjú.
            Ég var forvitin og ákvað að rölta upp í Hallgrímskirkju. Ég hafði einu sinni litið hana augum innan dyra og þá sem barn.
            Klukkurnar hringdu óreglulega á leið minni upp að kirkjunni og hættu svo alveg um það bil sem ég var komin efst á Skólavörðustíginn.
            Ég opnaði kirkjudyrnar varlega ef ske kynni að ég væri að trufla einhverja athöfn. En það var enginn inni.
            Orgelhljómur ómaði samt um kirkjuna og ég heyrði strax að það var verið að spila Heims um ból.
            Ég settist á bekk aftarlega í kirkjunni til að njóta tónlistarinnar.
            „Heims um ból, helg eru jól.“
            Ég lokaði augunum og texti lagsins flaug í gegnum huga mér þar sem ég söng með innra með mér.
            Ég fann að mér leið betur. Það vottaði jafnvel fyrir jólaskapi. Ég var tilbúin að fara heim núna.
            Ég var að gera mig klára að standa upp og fara þegar ég tók eftir stúlku tveimur bekkjum fyrir framan mig hinum megin á ganginum. Hún hlaut að hafa komið inn á eftir mér þar sem ég mundi ekki eftir að hafa séð hana þegar ég kom inn.
            Stúlkan grét. Ég gat heyrt ekkasogin í gegnum orgelhljóminn.
            Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að vera að skipta mér af þessu. En stúlkan leit varla út fyrir að vera meira en tólf ára. Í mesta lagi. Ég lét til skarar skríða.
            „Er allt í lagi, vinan?“ sagði ég og settist hjá henni.
            Hún leit ekki upp í fyrstu og hélt áfram að gráta.
            „Ertu bara ein?“ spurði ég aftur og leit í kringum mig.
            Stúlkan snökti og kinkaði kolli.
            „Hvað er að, elskan?“ spurði ég.
            „Ekkert,“ sagði hún og virti mig fyrir sér á meðan hún þurrkaði tárin úr augunum.
            „Hvar er mamma þín, vinan?“
            Stúlkan leit undan.
            „Dáin,“ sagði hún og brotnaði aftur niður.
            Ég spurði hana um pabba hennar og það var sama svar. Hann var dáinn líka.
            „Hvar áttu heima? Á ég að fylgja þér heim?“ spurði ég.
            Stúlkan kinkaði kolli.
            „Hjá Kollu frænku. En hún er full,“ sagði hún.
            „Full?“ spurði ég.
            „Já, það er partí heima. Þorlákspartí.“

            „Ó.“ Ég vissi ekki alveg hvað til bragðs átti að taka. Ég gat ekki skilið stúlkuna svona eftir.
            „Viltu ís?“ spurði ég.

            Hún leit á mig og ég gat séð brosvipru á vörunum.
            Við fundum ísbúð neðarlega á Skólavörðustígnum og hún valdi sér hræring með fullt af nammi á meðan ég sleikti venjulegan ís í brauði.
            Hún hét Sóley Þórsdóttir. Hún var með ljóst liðað hár og blá augu. Andlitið var smágert.
            Ég spurði hana af hverju hún  hafði farið í kirkjuna.
            „Til að hugsa um mömmu. Ég sakna hennar,“ sagði hún.
            Ég velti fyrir mér að segja henni frá mínum missi. Við áttum nógu mikið sameiginlegt, nema að hún var aðeins barn.
            Hún sagði mér frá pabba sínum sem hafði látist af slysförum á sjó þegar hún var átta ára gömul. Hún klemmdi saman varirnar og horfði niður fyrir sig þegar hún talaði um föður sinn. En það virtist róa hana að tala um þetta þannig að ég hélt áfram að spyrja.
            „En hvað um mömmu þína,“ spurði ég.
            „Hún dó í bílslysi,“ sagði hún.
            Ég fann mikla samúð með þessari stúlku sem átti engan að nema drukkna frænku.
            „Fjölskylda mín dó í bílslysi,“ sagði ég.
            „Ert þú ein líka?“ spurði hún.
            „Já, ég er ein,“ ég kláraði ísinn og henti brauðforminu.
            „Mig langar ekki heim,“ sagði hún.
            Ég vorkenndi stúlkunni. Það var Þorláksmessa og eina fjölskyldan sem hún átti var full frænka.
            „Viltu koma með mér að kaupa jólagjafir?“ spurði ég og var hissa á að ég hafði spurt þessarar spurningar.

            Sóley leit á mig hissa og kinkaði kolli.
            „Er það í lagi?“ spurði hún.
            „Já, en þú verður að láta frænku þína vita hvar þú ert.“
            Hún samsinnti því og við lögðum af stað heim.
            Á Laugaveginum fór ég inn í verslun til að kaupa gjöf handa henni. Sorgin var horfin. Í bili allavega.

            Ég reyndi að hringja heim til stúlkunnar þegar við komum heim en án árangurs. Það svaraði enginn þannig að ég gafst upp.
            „Þetta er handa þér,“ sagði ég og rétti ég henni pakkann.
            Hún virti pakkann fyrir sér.
            „Takk. Þetta er fallegur pakki. Ég vildi að ég gæti gefið mömmu hann.“
            „Þú getur sett merkimiða á hann og opnað hann fyrir hana,“ sagði ég.
            „Geturðu gert það?“ spurði hún og lifnaði öll við.
            „Já, ekkert mál,“ ég átti nokkra merkimiða í kassa upp í skáp og náði í einn.
            „Hvað hét mamma þín?“ spurði ég.
            „María Guðbrandsdóttir. En skrifaðu bara mamma.“

Ég heyrði pennann falla í gólfið. Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Þarna stóð dóttir konunnar sem hafði tekið fjölskyldu mína í burtu og brosti til mín. Ég studdi mig við borðið og settist niður.
            „Er allt í lagi?“ spurði hún.
            Ég leit upp og gat varla greint andlitsdrætti hennar í gegnum tárin.
            „Já, vinan. Það er ekki allt í lagi.“ Ég breiddi út faðminn og benti henni á að koma til mín. Ég tók brosandi stúlkuna í faðminn.
            „Já, það verður allt í lagi.“